Íslensk kona enn í haldi í Plattsburgh

Linda Björk Magnúsdóttir.
Linda Björk Magnúsdóttir.

Íslensk kona sem var handtekin í bænum Plattsburgh í New York ríki  í Bandaríkjunum fyrir um mánuði situr enn í gæsluvarðhaldi. Þá er ekki búið að taka hennar mál fyrir hjá dómstólum.

Linda Björk Magnúsdóttir var ákærð fyrir að hafa komist ólöglega til Bandaríkjanna og fyrir að hafa flúið af lögreglustöð eftir að hún hafði verið handtekin vegna fyrra brotsins. Henni var skipaður verjandi í síðasta mánuði.

Magnús Þór Sigmundsson, faðir Lindu, býst við því að enn sé mánuður í það að mál dóttur hans verði tekið fyrir. Hann segir í samtali við mbl.is að samkvæmt sínum upplýsingum geti málsmeðferðin tekið allt frá hálfu ári upp í tvö ár.

Aðspurður segir Magnús að Linda hafi farið ólöglega yfir landamærin til að hitta dóttur sína sem býr í New York ríki. „Hún var svo tekin og stakk af úr gæsluvarðhaldi. Þá tók þessi raunveruleiki við,“ segir Magnús.

Hann hefur tvisvar sinnum rætt við dóttur sína í síma. Hann segir að í fyrra skiptið hafi Linda verið mjög döpur en hann segist hafa reynt að hvetja hana til að örvænta ekki. Einnig eigi Linda í daglegum samskiptum við dóttur sína. Aðbúnaður hennar sé þokkalegur en aðspurður segir Magnús Lindu vera eina í klefa, en henni er gert að klæðast samfestingi líkt og aðrir fangar.

„Það virðist engin greinarmunur vera gerður á raunverulegum glæpamönnum og fólki sem gerir klaufaleg mistök,“ segir Magnús, sem er gagnrýninn á bandarískt réttarfar. Bandarísk stjórnvöld virðist setja alla undir sama hatt hafi þeir flúið undan lögreglu. „Þá virðist ekki vera gerður mikill greinarmunur á því hvort að það er morðingi að stinga af úr fangelsi eða manneskja sem hefur verið tekin fyrir ölvunarakstur, eða guð má vita hvað,“ segir hann.

Magnús hefur verið í samskiptum við starfsmann ræðisskrifstofu Íslands í New York vegna málsins, og notið aðstoðar hans. Hann skorar á íslensk yfirvöld til að sinna Íslendingum í útlöndum betur.

„Ég er svolítið hissa á því að það séu ekki skýrari tengsl á milli Ameríku og Íslands varðandi svona mál. Að það skuli enginn manneskja hérna, t.d. í dómsmálaráðuneytinu, geta hringt út og sagt: „Hvers konar vitleysa er þetta eiginlega? Af hverju sendið þið ekki konuna aftur heim?““

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka