Tæplega 10 þúsund greindir

Reuters

Mikið hefur dregið úr inflúensunni. Í síðustu viku greindist samtals 101 einstaklingur með inflúensulík einkenni samkvæmt skráningu heilbrigðisþjónustunnar. Tilfellum fækkaði bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.Frá 29. júní – 6. desember höfðu greinst 9733 einstaklingar með inflúensulík einkenni, þar af voru 4453 karlar og 5280 konur.

Fram til 6. desember sl. höfðu greinst 700 einstaklingar hér á landi með staðfesta inflúensu A(H1N1)v 2009 á veirufræðideild Landspítala, samkvæmt vef landslæknisembættisins. Þar af voru 345 karlar og 355 konur. Einungis eitt sýni af 23 sem bárust á rannsóknarstofuna í síðustu viku vegna öndunarfærasýkingar var jákvætt fyrir inflúensu A(H1N1)v 2009. Það sem af er hausti hefur enginn greinst með árlega inflúensu. Sýnum sem send eru í greiningu á inflúensu A(H1N1)v hefur fækkað mjög á sl. vikum og hlutfall jákvæðra sýna lækkað.

180 lagðir inn á sjúkrahús

Frá 23. september til 6. desember 2009 voru um 180 einstaklingar lagðir inn á sjúkrahús með grun um inflúensu eða staðfesta inflúensu A(H1N1)v 2009.
Langflestir voru lagðir inn á Landspítala eða um 130, þar af voru 20 einstaklingar lagðir inn á gjörgæsludeild Landspítala. Þann 8. desember voru þrír sjúklingar innliggjandi með inflúensu á Landspítala, þar af var einn á gjörgæsludeild.
Tveir einstaklingar, 18 ára stúlka og 81 árs karlmaður hafa látist af völdum staðfestrar inflúensu A(H1N1)v 2009. Stúlkan lést 19. október og maðurinn lést 20. nóvember  en bæði voru með alvarlega undirliggjandi sjúkdóma.

Sjá nánar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert