Ný sending bóluefnis gegn inflúensunni A(H1N1) berst heilsugæslustöðvum um land allt á mánudag og þriðjudag, 14. og 15. desember, og þá verður unnt að taka þráðinn upp að nýju og bólusetja fólk sem skráð hefur sig á biðlista.
Mjög hefur dregið úr inflúensufaraldrinum hér á landi undanfarna daga og vikur. Þrír sjúklingar lágu í gær á Landspítala vegna veikinnar, þar af einn á gjörgæsludeild.
Bólusetning hefst á nýjan leik miðvikudaginn 16. desember og þá ganga þeir fyrir sem hafa skráð sig á biðlista, samkvæmt tilkynningu frá landlækni.
Tekið er við nýjum pöntunum vegna bólusetningar frá og með mánudegi 14. desember, þ.e.a.s. á þeim heilsugæslustöðvum sem hafa ekki ráðstafað fyrir fram öllu bóluefninu í væntanlegri sendingu.
Bóluefni verður næst dreift um landið 6. janúar 2010 g verður tekið við pöntunum í þá sendingu eftir áramótin.
Sóttvarnalæknir beinir því til heilsugæslustöðva að gefa skýrar upplýsingar á heimasíðum sínum, og við símsvörun á hverjum stað, um gang bólusetningarinnar og helstu tímasetningar. Þetta er afar mikilvægt því staða mála er mismunandi á heilsugæslustöðvunum, eins og eðlilegt er, að því er segir í tilkynningu. Þannig verður unnt á sumum heilsugæslustöðvum að bólusetja fleiri núna í desember en eru þar á biðlista en á öðrum heilsugæslustöðvum dugar ný sending bóluefnis nú ekki til að bólusetja alla þá sem hafa skráð sig í bólusetningu. Í einhverjum tilvikum kemur því röðin ekki að fólki á biðlistum fyrr en í janúar.
Í síðustu viku var greint 101 inflúensulíkt tilfelli. Að mati sóttvarnalæknis hafa um 60.000 manns sýkst af inflúensunni frá því að faraldurinn hófst í vor.Um 180 manns hafa verið lagðir inn á sjúkrahús með grun um inflúensu eða staðfesta inflúensu, langflestir á Landspítala eða um 130.