Alþingi samþykkti í dag fjárlög fyrir árið 2010. Samkvæmt þeim verða tekjur ríkissjóðs tæpir 462 milljarðar króna á næsta ári en gjöld 561 milljarður króna. Samkvæmt því verður tekjuhalli ríkissjóðs 98,9 milljarðar króna á næsta ári.
Fjárlagafrumvarpið var samþykkt með 33 samhljóða atkvæðum en 27 þingmenn greiddu ekki atkvæði. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagðist telja niðurstöðuna mjög viðunandi miðað við aðstæður og raunhæft væri hægt yrði að ná fram frumjöfnuði á ríkissjóði árið 2011 og afgangi árið 2013.
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði við atkvæðagreiðsluna, að fjárlagafrumvarpið væri vanbúið að mörgu leyti. Sagði Höskuldur að framsóknarmenn gagnrýndu skattahækkunaráform ríkisstjórnarinnar, sem vegi að innviðum samfélagsins og velferðarkerfi þjóðarinnar. „Það hefði verið hægt að vinna málið mun betur," sagði Höskuldur.
Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður fjárlaganefndar, sagði að um væri að ræða mikilvæg og erfið fjárlög. Ekki hefði verið leitað ódýrra lausna heldur byggt á þeirri blönduðu leið tekjuauka og samdráttar sem boðuð var.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks sagði, að fjárlagafrumvarpið væri illa skipulögð óvissuferð inn í næsta ár. Ríkisstjórnin hefði fyrir kosningarnar í vor þagað þunnu hljóði um skattaáform sín en síðan komið í bakið á bæði atvinnurekendum og launþegum. Allt útlit væri fyrir að afkoma ríkissjóðs yrði mun verri en frumvarpið gerði ráð fyrir.
Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að ríkisstjórnin hefði orðið ber að agaleysi í ríkisfjármálum og virðingarleysi gagnvart Alþingi. 100 milljarða króna halli bæri vitni um að ríkisstjórnin hefði gefist upp við verkefni sitt. „Þetta eru illa grunduð vinnubrögð og svik við gefin fyrirheit," sagði Kristján Þór.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði að skattahækkanir ríkisstjórnarinnar gangi ekki upp og reyna ætti þess í stað að sækja fé til þeirra sem nýta auðlindir þjóðarinnar án þess að greiða fyrir þær. Sagði hann að sér þætti ekki heil brú í mörgum liðum fjárlagafrumvarpsins.
Breytingartillögur Hreyfingarinnar við frumvarpið fengu ekki hljómgrunn við atkvæðagreiðsluna og voru þær allar felldar með atkvæðum þingmanna hinna flokkanna allra.
Þess má geta, að fjárlög fyrir yfirstandandi ár voru fyrir ári afgreidd með 153 milljarða króna halla. Útlit er fyrir, að halli á rekstri ríkissjóðs verði um 160 milljarðar.