Áslaug tilnefnd til leikskáldaverðlauna

Áslaug Jónsdóttir ásamt Ásu Richardsdóttur, formanni Leiklistarsambands Íslands, og íslensku …
Áslaug Jónsdóttir ásamt Ásu Richardsdóttur, formanni Leiklistarsambands Íslands, og íslensku valnefndinni, sem í sátu Silja Aðalsteinsdóttir, útgáfustjóri, Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, rithöfundur og tónlistarmaður og Jórunn Sigurðardóttir, dagskrárgerðarmaður.

Áslaug Jónsdóttir er tilnefnd fyrir Íslands hönd til
leikskáldaverðlauna Norðurlanda 2010 fyrir barnaleikritið Gott kvöld. Norrænu leiklistarsamböndin standa að Norrænu leikskáldaverðlaununum sem veitt eru annað hvert ár í tengslum við Norræna leiklistardaga.  Að þessu sinni var ákveðið að verðlauna leikskáld fyrir barnaleikrit.

Alls bárust 7 tilnefningar um barnaleikverk. Í umsögn valnefndar segir, að Gott kvöld sé vel skrifað leikverk, klassískt í byggingu, og skiptist á leikin atriði og sungin. Þetta sé frumlegt verk sem leiki sér á einstakan hátt að tungumálinu í þrívíðu samhengi leikhússins. Það sé hugsað fyrir börn undir skólaaldri en virki fyrir fólk á öllum aldri af því hvað það noti ímyndunaraflið og tungumálið á frjóan og skemmtilegan hátt.

Áslaug  lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1983 og stundaði síðan nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1984-1985 og Listiðnaðarskólann í Kaupmannahöfn árin 1985-1989 og lauk lokaprófi frá teikni- og grafíkdeild skólans.

Frá því að Áslaug lauk námi hefur hún starfað sem teiknari, rithöfundur, grafískur hönnuður og bókverkakona. Hún hefur skrifað og myndskreytt fjölda barnabóka og tekið þátt í samsýningum, bæði hér heima og erlendis. Meðal bóka sem Áslaug hefur sent frá sér, sem höfundur bæði texta og mynda, eru Gullfjöðrin, Fjölleikasýning Ástu, Stjörnusiglingin, Á bak við hús - Vísur Önnu, Einu sinni var raunamæddur risi, Sex ævintýri, Unugata, Eggið, Gott kvöld og Ég vil fisk! Bækurnar Nei! sagði litla skrímslið, Stór skrímsli gráta ekki, og Skrímsli í myrkinu samdi hún í samvinnu við Kalle Güettler og Rakel Helmsdal.

Bækur Áslaugar hafa verið þýddar á  mörg tungumál og hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín. Hún hlaut  Barnabókaverðlaun Menntaráðs Reykjavíkur fyrir Gott kvöld árið 2005 og var tilnefnd til Norrænu Barnabókaverðlaunanna fyrir sömu bók árið 2006. Áslaug hlaut Barnabókaverðlaun Vestnorrænaráðsins 2002 ásamt Andra Snæ Magnasyni fyrir Söguna af Bláa hnettinum.

Þann 31. október s.l var  frumsýnt leikritið Sindri silfurfiskur í Kúlunni og standa sýningar enn yfir.

Úr sýningu á verkinu Gott kvöld.
Úr sýningu á verkinu Gott kvöld.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert