Þörf á beinum aðgerðum í jafnréttismálum

Árni Páll Árnason
Árni Páll Árnason mbl.is

Reynslan hefur sýnt að til þess að ná árangri í jafnréttismálum þarf beinar aðgerðir og sterkan hugmyndafræðilegan aga. Þetta sagði Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra þegar hann ávarpaði málþing Háskóla Íslands um kynbundin valdakerfi í íslenskum stjórnmálum og efnahagslífi sem haldið var í dag. Ávarp Árna Páls má finna á vef ráðuneytis hans.

Í framsögu sinni benti Árni Páll á niðurstöður ýmissa kannanna sem sýndu ágætan árangur Íslands á sviði jafnréttismála að undanförnu, einkum í stjórnmálalífinu.

„Ísland hefur lengi verið ofarlega á lista yfir þau lönd þar sem jafnrétti kynjanna er hvað mest og árið 2009 komst Ísland í fyrsta sæti þjóða hvað þetta varðar á lista World Economic Forum (WEF) Þetta er ágætt eins langt og það nær. En við megum ekki aðeins gleðjast yfir árangrinum og láta þar við sitja. Við þurfum að meta ágallana í frammistöðu okkar og gera ennþá betur.“

Á Alþingi Íslendinga er hlutur kvenna nú 43%, í ríkisstjórninni er jafnt hlutfall kynja, kona er í fyrsta sinn forsætisráðherra, handhafar forsetavaldsins eru allir konur og flestir forsetar þingsins. Árni Páll sagði að það mætti tvímælalaust þakka þann árangur sem náðst hefði á Alþingi því að stjórnmálaflokkarnir sem fengu framgang í síðustu kosningum hefðu haft á stefnuskrá sinni að jafna hlut kynjanna.

Þetta sýndi glöggt að beinar aðgerðir skila mestum árangri. Hann sagði mikilvægt að hafa þetta í huga nú þegar sveitarstjórnarkosningar eru framundan, en lýsti áhyggjum af því að flokkarnir virtust ekki ætla að grípa til sérstakra aðgerða í prófkjörum sínum að þessu sinni.

Ráðherra sagði áhyggjuefni að lítið þokaðist í rétta átt í atvinnulífinu þar sem karlar eru í miklum meirihluta eigenda, stjórnenda og þeirra sem eiga sæti í stjórnum fyrirtækja. Það væri mikið umhugsunarefni hvernig staða kvenna væri í æðstu stjórnum bankanna eftir efnahagshrunið, ekki síst þar sem það sýndi sig að ríkið stæði sig síst betur en aðrir þegar kæmi að því að tryggja hlut kvenna í efstu stjórnunarlögunum. Þá er ekki að sjá að aukin áhrif hins opinbera hafi haft jákvæð áhrif.

„Í jafnréttismálum gerist ekkert af sjálfu sér. Mestum árangri skila beinar aðgerðir og jafnframt er nauðsynlegt að halda uppi sterkum hugmyndafræðilegum aga, jafnt í stjórnmálalífinu og atvinnulífinu,“ sagði ráðherra.

Hann gerði einnig að umtalsefni frumvarp sem nú bíður þriðju umræðu á Alþingi um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög, þar sem kveðið er á um hlut kvenna í stjórnum hlutafélaga og einkafélaga.

Í grófum dráttum er miðað við að í stjórnum opinberra hlutafélaga og einkahlutafélaga þar sem starfa fleiri en 50 starfsmenn skuli bæði kynin eiga fulltrúa í stjórn. Ef stjórnarmenn eru fleiri en þrír skal tryggt að hlutfall hvors kyns sé ekki lægra en 40%.

Miðað er við að þessi lagaákvæði taki gildi 1. september 2013 og sagðist ráðherra ætlast til þess og reikna með því að fyrirtækin nýti tímann fram að því til að jafna hlut kynjanna.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert