Hlutafjáraukning til rannsóknar

Starfsfólk sérstaks saksóknara ásamt starfsfólki Serious Fraud Office í Bretlandi gerði húsleit hjá Exista klukkan níu í morgun. Rannsókn sérstaks saksóknara beinist að hlutafjárhækkun Exista í desember 2008 og viðskiptum með hluti Exista í Bakkavör. Rannsókn Serious Fraud Office beinist að viðskiptum með hluti Exista í JJB Sports, að því er segir í tilkynningu frá Exista.

Starfsfólk Exista aðstoðar starfsmenn embættanna við gagnaöflun og er embættunum innan handar við rannsókn málanna, segir ennfremur í tilkynningunni.

Líkt og fram hefur komið á mbl.is hefur einnig verið gerð húsleit á skrifstofu lögmannsstofunnar Logos en stofan hefur unnið bæði fyrir Bakkavör og Exista.

Bakkabræður keyptu hlutinn á undirverði

Á hluthafafundi Exista þann 30. október 2008, nokkrum vikum eftir hrun, var samþykkt að breyta samþykktum félagsins með þeim hætti að heimilað væri að auka hlutafé um 50 milljarða króna að nafnvirði.

Í kjölfarið var BBR ehf., félag í eigu Lýðs og Ágústs Guðmundssona, skráð fyrir hinu nýja hlutafé. Í lögum um hlutafélög segir orðrétt að „greiðsla hlutar má ekki nema minna en nafnverði hans.“ Því hefði BBR ehf., samkvæmt lögum, átt að greiða 50 milljarða króna fyrir hið nýja hlutafé. Það gerði félagið hins vegar ekki, heldur var greitt með öllu hlutafé í öðru félagi, Kvakki ehf.

Það félag er í eigu sömu aðila og BBR ehf. Hlutafé í Kvakki var hins vegar alls að nafnvirði einn milljarður króna, eða einungis 1/50 af nafnverði hlutanna í Exista sem verið var að „kaupa.“ Því var greiddur einn milljarður króna fyrir 50 milljarða hlut að nafnverði. Með þessum aðgerðum eignuðust bræðurnir Ágúst og Lýður 78 prósent í Exista. Þeir gerðu síðan öðrum hluthöfum yfirtökutilboð þar sem þeir buðu tvo aura fyrir hvern hlut, að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins (FME).

Hlutafjáraukning úrskurðuð ólögmæt

Fyrirtækjaskrá úrskurðaði þann 29. júní 2009 að hlutafjáraukningin hafi verið ólögmæt, en í úrskurðinum kom fram að að gengið hafi verið út fyrir ystu mörk í formi og framsetningu við að fá umrædda hlutafjárhækkun skráða.

Exista seldi Bakkabræðrum hluinn í Bakkavör

Stjórn Exista ákvað í október 2008 að selja allan hlut félagins í Bakkavör Group, 39,629% af heildarhlutafé, til ELL 182 ehf. Söluverð er 9,79 krónur á hlut sem var síðasta dagslokagengi í Bakkavör Group 8. október. Söluvirðið var því tæpir 8,4 milljarðar króna.

ELL 182 ehf., er  félag í eigu Lýðs Guðmundssonar og Ágústs Guðmundssonar.

JJB Sport rannsakað af Soca og SFO

Breska stofnunin Serious Organiesed Crime Agency, (Soca), sem venjulega rannsakar alvarlega skipulagða glæpastarfsemi, svo sem fíkniefnasmygl eða peningaþvætti, er að rannsaka gerðir fyrrum stjórnenda bresku íþróttaverslunarkeðjunnar JJB Sports. Þetta kom fram í október í fyrra.

Í september var upplýst, að breska samkeppniseftirlitið og efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar, Serious Fraud Office, (SFO) væru að rannsaka hvort fyrirtækin JJB og Sports Direct hefðu átt með sér ólöglegt verðsamráð.

Svo virðist sem rannsókn bresku rannsóknarstofnananna beinist einkum að því tímabili sem Chris Ronnie stýrði JJB eða frá miðju ári 2007 til mars á þessu ári. Exista var, ásamt Ronnie, stærsti hluthafi félagsins með rúm 27%.  Kaupþing í Bretlandi gerði hins vegar veðkall í bréfin og tók þau yfir um miðjan janúar.  Þetta kom í ljós í mars sl. og þá var Ronnie rekinn frá JJB.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert