Húsleit hjá Deloitte

Deloitte
Deloitte mbl.is/Rax

Starfsmenn embættis sérstaks saksóknara komu í höfuðstöðvar Deloitte á Íslandi í morgun með dómsúrskurð um að fá gögn afhent sem tengjast Exista og Bakkavör. Að sögn Þorvarðar Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Deloitte, var bæði um skjöl og rafræn gögn að ræða.

Þorvarður segir tilefni rannsóknarinnar vera kæra Nýja Kaupþings frá því á síðasta ári en bankinn kærði til sérstaks saksóknara forsvarsmenn Exista og þá starfsmenn Deloitte og Logos lögmannsþjónustu sem önnuðust tilkynningu til hlutafjárskrár vegna hlutafjáraukningar Exista í desember 2008.

Að mati bankans fer háttsemi viðkomandi aðila gegn lögum um hlutafélög. Fyrirtækjaskrá úrskurðaði hlutafjáraukninguna ólögmæta í sumar og gerði alvarlegar athugasemdir við framgöngu lögmanna og endurskoðenda Exista. Hilmar A. Alfreðsson skrifaði undir skýrslu Deloitte.

Nýi Kaupþing banki hefur einnig kært forsvarsmenn Exista vegna sölu á hlut Exista í Bakkavör Group þann 11. september 2009 til sérstaks saksóknara.

Í tilkynningu frá Nýja Kaupþingi þegar kæran var lögð fram í september í fyrra kemur fram að það sé mat bankans að forsvarsmenn Exista hafi fyrir hönd félagsins brotið gegn ákvæðum 250. grein í auðgunarbrotakafla almennra hegningarlaga með sölunni. Sú grein fjallar um skilasvik. Nýja Kaupþing mun jafnframt leita einkaréttarlegra úrræða.

Fram hefur komið að þeir Ágúst og Lýður Guðmundssynir létu Exista, sem er að mestu í óbeinni eigu kröfuhafa í dag, fjármagna kaup þeirra sjálfra á 39,62 prósenta hlut Exista í Bakkavör með skuldaviðurkenningu upp á 8,4 milljarða króna. Þetta þýðir að bræðurnir lögðu ekkert eigið fé fram við kaupin.

Líkt og fram hefur komið á mbl.is í morgun hefur einnig verið gerð húsleit á skrifstofu Exista á Íslandi og í Lundúnum. Jafnframt var gerð húsleit á skrifstofu Logos en lögmannsstofan hefur líkt og Deloitte unnið fyrir Exista og Bakkavör.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert