Húsleitir í gangi

RÚV

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, staðfesti í samtali við mbl.is að embættið væri með húsleitir í gangi á nokkrum stöðum. Hann gat ekki staðfest um hvaða félög um ræðir en embættið muni væntanlega senda frá sér fréttatilkynningu um málið síðar í dag.

Samkvæmt óstaðfestum heimildum mbl.is er meðal annars leitað í höfuðstöðvum Exista í Ármúla. Hvorki er leitað hjá VÍS né Símanum en þau félög eru í eigu Exista. Helstu eigendur Exista eru bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundsson. Ekki hefur náðst í þá í dag né forstjóra Exista þá Sigurð Valtýsson og Erlend Hjaltason.

Líkt og fram kom í Morgunblaðinu í dag stefnir Ólafur Þór að því að senda frá sér fyrstu ákærurnar í lok vetrar. Hann segir þó að í umfangsmiklum rannsóknum geti alltaf komið fram einhver nýr flötur á málum sem kalli á viðbótarvinnu og tafir. Ríflega 60 mál hafa verið rannsökuð hjá embættinu, en 18 málum hefur verið vísað annað, þau felld niður eða sameinuð öðrum málum.

Ólafur Þór segir að það sé alltaf talsverð óvissa varðandi rannsókn opinberra mála hversu langan tíma rannsókn tekur. Mörg af þeim málum sem embætti sérstaks saksóknara er með til rannsóknar eru „mjög þung“ að sögn Ólafs og kalla á mikla vinnu. Hann segir að taka þurfi skýrslur af mönnum oftar en einu sinni. Í Byrsmálinu, sem unnið var mikið í í desember, þurfti t.d. að taka skýrslur af sumum mönnum þrisvar til fjórum sinnum vegna þess að leita þurfti eftir skýringum á nýjum atriðum sem upp komu við rannsóknina.

Ólafur Þór segir að þess sé ekki að vænta að rannsókn á stærstu málunum ljúki á allra næstu mánuðum. Nauðsynlegt sé að vinna málin vel og upplýsa allar staðreyndir í þeim áður en tekin er ákvörðun um hvort gefa á út ákæru.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert