Eftir Egil Ólafsson
Starfsmenn embættis sérstaks saksóknara leituðu í gær í sumarhúsi Lýðs Guðmundssonar, á heimili hans og í geymsluskemmu sem hann og Ágúst bróðir hans eiga. Auk þess var leitað í höfuðstöðvum Exista, hjá eignaleigufélaginu Lýsingu, lögmannsstofunni Logos og endurskoðunarfyrirtækinu Deloitte. Ennfremur var gerð húsleit í höfuðstöðvum Exista í London og á skrifstofu Bakkavarar í Lincoln og á tveimur öðrum stöðum í Bretlandi.
Í tilkynningu frá sérstökum saksóknara segir að rannsóknin varði verulega fjárhagslega hagsmuni og hún tengist fjölda einstaklinga og fyrirtækja.
Forsvarsmenn Exista, Lýður og Ágúst Guðmundssynir og Erlendur Hjaltason, voru allir erlendis þegar húsleitirnar fóru fram í gær. Þeir voru væntanlegir til landsins á miðnætti. Í gær voru teknar skýrslur af endurskoðanda Exista og einum lögmanni hjá Logos sem útbjó skjöl varðandi sölu Exista á hlut félagsins í Bakkavör og skjöl varðandi hlutafjáraukningu Exista í desember 2008.
Að húsleitunum stóð auk embættis sérstaks saksóknara Serious Fraud Office (SFO) í London, en skrifstofan er m.a. að rannsaka kaup Exista á 29% hlut í fyrirtækinu JJP Sports árið 2007.