Eggert Magnússon listmálari, einn af þekktari naivistum þjóðarinnar, lést á hjúkrunarheimilinu Grund 14. mars sl., 95 ára að aldri. Hann fæddist 10. mars 1915 í Reykjavík og bjó lengst af í Engjabæ við Holtaveg, þar sem nú er Fjölskyldugarðurinn í Laugardal.
Foreldrar Eggerts voru Magnús Jónsson frá Breiðholti í Reykjavík og Hrefna Eggertsdóttir Norðdahl frá Hólmi í Seltjarnarneshreppi.
Eggert var sjálfmenntaður listamaður sem hóf að mála myndir upp úr 1960 samhliða sjómennsku. Hann fór ungur til sjós og stundaði bæði veiðar við Grænland og strendur Gambíu í Afríku. Myndefni sín sótti Eggert gjarnan til þeirra framandi slóða sem hann hafði heimsótt eða í minningabrot og fréttnæma viðburði. Eggert málaði af lífi og sál og varla leið sá dagur meðan hann var heilsuhraustur að hann gripi ekki til pensilsins.
Eggert hélt sína fyrstu sýningu 1965 í Lindarbæ Dagsbrúnar og svo margar einkasýningar s.s. í Djúpinu við Hafnarstræti 1982, Listmunahúsinu við Lækjargötu 1985, á Kjarvalsstöðum 1987, Safnasafninu 2002, Hafnarborg og Galleríi Louise Ross í New York. Þá sýndi hann einnig nokkrum sinnum í Gallerí Fold og Gerðubergi.