Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að ríkisstjórnin hafi brugðist, hafi sett allt í uppnám og eigi að fara frá völdum.
„Í fyrra fengu kjósendur ríkisstjórn sem þeir vildu en þeir hafa nú áttað sig á því að þeir vildu ekki það sem þeir fengu,“ segir Bjarni um fylgiskönnun Fréttablaðsins, en samkvæmt henni fengi Sjálfstæðisflokkurinn yfir 40% atkvæða og 27 þingmenn en stjórnarflokkarnir töpuðu miklu fylgi.
Bjarni segir að fylgistap ríkisstjórnarinnar í könnuninni komi sér ekki á óvart. Hún hafi verið ósamstiga, lagt áherslu á röng mál, brugðist í hagsmunagæslu og svikið fyrirheit um aðgerðir.
Að sögn Bjarna er fylgisaukning Sjálfstæðisflokksins í takt við það sem fulltrúar hans hafi fundið fyrir á fundum. Nú þurfi að leggja áherslu á mál sem sameini þjóðina. Sjálfstæðismenn hafi talað fyrir atvinnuskapandi verkefnum, en þar hafi ríkisstjórnin þvælst fyrir. „Við höfum talað fyrir hagsmunagæslu í málum eins og Icesave. Þar hefur ríkisstjórnin algerlega brugðist. Nú þarf ríkisstjórnin að horfast í augu við það að hún hefur ekki umboð til þess að halda áfram á sömu braut,“ segir Bjarni.
„Ég tel að ríkisstjórn sem er verklaus, ósamstiga og nýtur ekki trausts hafi ekkert erindi lengur,“ segir Bjarni. Hann segist ekki gera lítið úr því að við mikinn vanda sé að etja en fólk ætlist réttilega til þess að gengið sé hreint til verks. „Fólk ætlast til þess að stjórnvöld þvælist ekki fyrir. Fólk vill fá að grípa þau tækifæri sem eru til staðar. Ríkisstjórnin hefur ekki haft burði til þess að greiða götu fólks og fyrirtækja.“
Bjarni segir mikilvægt að boðað verði til kosninga og kosið verði um það hvernig taka eigi á stöðunni vegna þess að það hafi ekki verið gert. „Fólk er óánægt með hugmyndir ríkisstjórnarinnar í því efni,“ segir hann.
Formaður Sjálfstæðisflokksins vill sjá ríkisstjórn sem hafi augun á réttu hlutunum eins og verðmætasköpun og sköpun atvinnutækifæra, ríkisstjórn sem leggi áherslu á að loka fjárlagagatinu og greini aðalatriðin frá aukaatriðunum, ríkisstjórn sem leggi grunn að endurheimt líffskjara á Íslandi. „Ríkisstjórn sem elur ekki á sundrungu heldur leggur á þessum þröngu tímum áherslu á mál sem sameina þjóðina.“