„Við fylgjumst með stöðunni og á þessari stundu eru okkar mannvirki á svæðinu ekki í hættu, samkvæmt því sem best er vitað,“ segir Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands.
Félagið á skála á Fimmvörðuhálsi sem er ein vinsælasta gönguleið landsins. Húsið, sem er nefnt Baldvinsskáli, komst í eigum FÍ fyrir tveimur árum og er endurgerð þess á dagskrá. Á hálsinum er annað sæluhús, Fimmvörðuskáli, sem er í eigu Útivistar.
„Ef gosið stendur ekki þeim mun lengur sé ég fyrir mér að áhugi fólks á þessum svæði muni aukast. Það gæti orðið áhugavert fyrir marga að ferðast þarna og kynna sér eldstöðvarnar,“ segir Páll sem áætlar að á bilinu 6.000 til 8.000 manns gangi yfir Fimmvörðuháls, milli Skóga undir Eyjafjöllum og Bása á Goðalandi, á sumri hverju. Þannig hafa Jónsmessuferðir yfir hálsinn undir merkjum Útivistar notið mikilla vinsælda. Í áætlun FÍ fyrir komandi sumar voru átta til tíu ferðir á dagskrá um þessar slóðir.