Tilfinningaþrungin umræða á Alþingi

Breiðavík
Breiðavík mbl.is/Ómar

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra mælti í dag á Alþing i fyrir frumvarpi til laga um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum og heimilum fyrir börn. Þar er kveðið á um bætur allt að 6 milljónum króna til handa einstaklingum sem urðu fyrir varanlegum skaða vegna illrar meðferðar eða ofbeldis á tilteknum stofnunum eða heimilum.

Allir þeir sem tóku til máls við 1. umræðu lýstu stuðningi við frumvarpið. Umræðan var á köflum tilfinningaþrungin og fram kom sú eindregna von að með samþykkt frumvarpsins yrði hægt að gera upp ljótan kafla í Íslandssögunni.

Jafnvel þótt peningar dygðu skammt til að bæta þá þungbæru reynslu og missi tækifæra sem margir hefðu orðið fyrir þá stæðu vonir til að með greiðslu sanngirnisbóta, til viðbótar við afsökunarbeiðni sem þegar hefur verið borin fram og ítarlega rannsókn atvika, yrði hægt að ná sáttum við hlutaðeigandi. Þá yrði að tryggja við framvæmd barnaverndarmála að atburðir eins og þeir sem gerðust á Breiðavíkurheimilinu endurtækju sig ekki.

Í lok umræðunnar lýsti forsætisráðherra ánægju yfir því að þingheimur skyldi hafa talað einni röddu í þessu máli. Þakkaði hún Breiðavíkursamtökunum og öðrum sem komið hafa að undirbúningi málsins þeirra góða innlegg.

Hér er hægt að fylgjast með umræðum um málið 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka