Ungmenni handtekin við innbrot

Piltarnir brutu rúðu til að komast inn í verslunina. Þeir …
Piltarnir brutu rúðu til að komast inn í verslunina. Þeir stálu tóbaki og hlupu á brott. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók þrjá unga pilta skammt frá versluninni Spar í Vesturbergi á fjórða tímanum í nótt. Piltarnir sem eru á aldrinum 13-15 ára brutu sér leið inn í verslunina og höfðu tóbak með sér á brott. Skýrsla var tekin af þeim undir morgun.

Að sögn varðstjóra var tilkynnt um innbrot í verslunina Spar. Þegar lögregla kom á vettvang varð hún var við þrjá einstaklinga á hlaupum og voru þeir hlaupnir uppi. Kom ungur aldur þeirra lögreglu á óvart. Piltarnir brutu rúðu til að komast inn í verslunina.

Við skýrslutöku voru viðstaddir foreldrar piltanna og fulltrúar barnaverndaryfirvalda. Þeim var sleppt að loknum skýrslutökum. Ekki liggur fyrir hvort þeir hafi áður komist í kast við lögin, en tveir piltanna eru undir sakhæfisaldri.

Að öðru leyti var nóttin fremur róleg á höfuðborgarsvæðinu. Einn ökumaður var stöðvaður fyrir ölvun undir stýri. Lögregla hafði af honum afskipti eftir að hann ók yfir á rauðu ljósi.

Þá kom upp eitt fíkniefnamál. Neysluskammtar fundust á einstaklingi á förnum vegi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka