Liðsmenn úr Björgunarfélagi Árborgar eru nú á leið niður af Fimmvörðuhálsi með fjóra erlenda göngumenn. Þeir voru orðnir kaldir og matarlausir enda illa búnir til ferðarinnar.
Tryggvi Oddsson, sem er í Björgunarfélagi Árborgar, sagði að mennirnir, sem eru karlmenn á þrítugsaldri hafi verið orðnir matarlausir og kaldir eftir kalsama nótt í Baldvinsskála.
Mennirnir voru komnir að hraunfossunum þegar björgunarsveitarmenn fundu þá í dag. Reynt var að snúa mönnunum við í gær vegna slæms veðurútlits og útbúnaðar mannanna. Þeir neituðu því alfarið þá.
Björgunarsveitarmenn voru að svipast um eftir mönnunum þegar þeir fundust í dag. Þá voru þeir orðnir þreyttir, kaldir og matarlausir. Þeir höfðu vanáætlað hvað þeir þyrftu mikið að borða. Þeir gistu í Baldvinsskála í nótt en kunnu ekki á hitunina og sváfu lítið vegna kuldans.
„Þeir voru ekki orðnir örmagna en hefðu aldrei komist heim aftur,“ sagði Tryggvi. „Þeir reiknuðu ekki með veðrinu og hvað þeir þyrftu að borða mikið. Svo voru þeir ekki heldur rosalega vel klæddir.“ Hann bjóst við að komið yrði með mennina niður að Skógum um kl. 16.30.
Fáir eru nú á göngu upp á Fimmvörðuháls í mjög leiðinlegu veðri, að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli. Björgunarsveitarmenn eru á svæðinu og fylgjast með göngufólki, hvort það er nógu vel búið. Þeim sem þykja vanbúnir til ferðarinnar er snúið við.
Nú er rok og skafrenningur á gönguleiðinni og mjög kalt uppi á Fimmvörðuhálsi.