Ný sprunga hefur opnast

Nýja sprungan opnaðist um klukkan 19.00 í kvöld.
Nýja sprungan opnaðist um klukkan 19.00 í kvöld. Kristinn Garðarsson

Ný sprunga hefur opnast á Fimmvörðuhálsi, norðvestan við gígana sem fyrir voru, og gengur hún í átt að Hvannárgili. Hún er 300-400 metrar og í stefnu við gömlu sprunguna. Virknin í aðalgígunum minnkaði þegar nýja sprungan opnaðist, að sögn Ármanns Höskuldssonar eldfjallafræðings sem er við gosið.

Ármann sagði að gosið í nýju sprungunni verði kröftugra og kröftugra og að strókarnir séu að hækka. Hann sagði að nýja sprungan sé aðeins skásett við hina sprunguna. 

„Við erum að horfa á þetta gerast. Þetta er að rifna hérna og nýir gígar að hlaðast upp. Þetta er stórfenglegt,“ sagði Ármann. „Það hefur minnkað mikið virknin í aðalgígunum út af þessu af því kvikan hleypur undan.“

Kristinn Garðarsson, kortagerðarmaður á Morgunblaðinu og mbl.is, kom á Bröttufannarfell um sjöleytið, um það bil sem sprungan var að opnast. „Þetta er að stækka en ekki eins stórt og hitt,“ sagði Kristinn. Hann sagði að hraun væri þegar tekið að renna niður að Hvannárgili og sýndist hraunstraumurinn vera þó nokkur. 

Kristni sagði að enn væri gígur öflugur í eldri gosstöðinni.  Hann taldi að fólk hafi ekki verið nálægt nýju sprungunni. Hann sagði að nýja sprungan sé þannig staðsett að fólk sem hafi farið upp á Fimmvörðuháls að sunnanverðu sjái illa eða ekki til nýju sprungunnar vegna nýja fellsins sem gosið myndaði.

„Þetta sést mjög vel þaðan sem ég er. Ég er bara um 200 metra frá þessu,“ sagði Kristinn þar sem hann stóð á Bröttufannarfelli. Hann sagði að töluvert mikil læti séu í nýja gosinu.

Uppfært kl. 19.45

Kristinn sagði að töluvert öskufall sé nú á Fimmvörðuhálsi. Einnig sé hraunið greinilega að renna út í snjó því töluverðir gufustrókar standi upp í loftið.

Norðanátt er á svæðinu og ber hún öskuna suður yfir Fimmvörðuháls. Kristinn sagði að þegar sé tekið að móta fyrir gjallhaugum við nýju sprunguna. Hann sagði að nýja sprungan sé í halla og virtist honum hraunið eiga greiða leið í Hvannárgil. 

Hægt er að fylgjast með eldosinu í vefmyndavélum Mílu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka