Alvarlegt flugslys varð skammt frá Flúðum skömmu eftir klukkan fjögur í dag. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi brotlenti lítil flugvél í Holtabyggð við Syðra-Langholt.
Fjórir, þrír karlmenn og ein kona, voru um borð í vélinni, sem er af gerðinni Cessna. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út til að sækja hina slösuðu. Hún lenti á svæðinu skömmu eftir klukkan fimm í dag og lendir við Landspítalann í Fossvogi nú um sexleytið með þrjá slasaða.
Að sögn lögreglunnar á Selfossi er einn alvarlega slasaður og leikur grunur um að um hryggmeiðsl geti verið að ræða sem og innvortis meiðsl, hjá tveimur er talin hætta á innvortis meiðslum, en einn er lítið slasaður og verður viðkomandi fluttur með sjúkrabíl á slysadeild Landspítalans í Reykjavík.
Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu voru félagar úr Björgunarsveitinni Eyvindi á Flúðum, Björgunarsveit Biskupstungna og Björgunarfélag Árborgar kallaðar út vegna slyssins.
Að sögn sjónarvotta, sem mbl.is náði tali af, hafði vélin verið að hringsóla yfir sumarbústaðahverfinu á Flúðum þegar hún skyndilega missti afl og brotlenti. Mun vélin vera mikið skemmd að framan en hún er framleidd árið 1968 og getur tekið þrjá farþega.
Lögreglan er nú að ræða við vitni til þess að fá upplýsingar um hvað gerðist. Málið er til rannsóknar hjá rannsóknarnefnd flugslysa, sem mætt er á staðinn, sem og hjá rannsóknarlögreglunni á Selfossi.