Há lán til fjölmiðlamanna

Björn Ingi Hrafnsson.
Björn Ingi Hrafnsson. mbl.is/Sverrir

Rannsóknarnefnd Alþingis kannaði sérstaklega hvort alþingismenn og fjölmiðlamenn hafi notið óeðlilegrar lánafyrirgreiðslu í íslensku bönkunum var eftirfarandi greining gerð. Fram kemur í skýrslunni að tveir fjölmiðlamenn, Björn Ingi Hrafnsson og Óli Björn Kárason, höfðu fengið um hálfan milljarð króna að láni. Styrmir Gunnarsson var með yfir 100 milljóna króna lán. 

Lán til Björns Inga Hrafnssonar námu 563 milljónum króna í september 2008 og  voru þau öll veitt af Kaupþingi banka. Annars vegar voru lánin til Björns beint en þau voru hæst í lok september 2008, rúmar 100 milljónir króna. Hins vegar voru lán veitt til félags í hans eigu, Caramba-hugmyndir og orð ehf. Þau lán voru því sem næst öll í formi framvirkra samninga um hlutabréf.

Rannsóknarnefndin telur ástæða til að vekja athygli sérstaks saksóknara á lánveitingum Kaupþings til Caramba, eignarhaldsfélags í eigu Björns Inga Hrafnssonar.

Þau hlutabréf sem hæstu samningarnir voru um voru í Kaupþingi, Exista, Bakkavör og Spron. Rannsóknarnefndin segir að það veki athygli að í september 2008 gerði félagið nýja samninga um kaup á hlutabréfum Exista, sem námu um 230 milljónum króna. Við gerð þeirra samninga ríflega tvöfölduðust skuldir félagsins.

Lán til Óla Björns Kárasonar námu 478 milljónum króna í lok ágúst 2008 og voru að langmestu leyti til félags hans ÓB-fjárfestingar ehf. og félaga í meirihlutaeigu þess, Framtíðarsýnar hf. (áður 2012 ehf.) og Fiskifrétta ehf. (áður 2013 ehf.) en Framtíðarsýn gaf út Viðskiptablaðið og Fiskifréttir gáfu út samnefnt blað.

Lán til þessara þriggja félaga voru öll frá Kaupþingi banka. Þegar lán til þessara félaga voru hæst voru þau að mestu leyti til Framtíðarsýnar og Fiskifrétta en að nokkru leyti virðast þau hafa færst yfir til ÓB-fjárfestingar fram á byrjun árs 2006. Þaðan í frá voru skuldirnar eingöngu í útgáfufélögunum tveimur en þær voru um 200 milljónir fram til ársins 2007 og um 100 milljónir frá því snemma þess árs.

Styrmir Gunnarsson hafði lán í öllum stóru bönkunum þremur á tímabilinu frá ársbyrjun 2005 fram til falls bankanna. Hæst voru þau í byrjun árs 2006 en fyrstu 7 mánuði ársins námu lán hans frá Landsbankanum um 130 milljónum. Frá miðju ári 2007 voru lán hans við bankana þrjá undir 100 milljónum króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert