Yfirmenn Landsbankans vildu í lengstu lög komast hjá því að breyta útibúinu í Bretlandi í dótturfélag vegna þess að þá hefði ekki lengur verið jafn auðvelt að nota peninga úr útibúunum í daglegan rekstur móðurbankans, segir í frétt á vefsíðu BBC um hrunskýrsluna.
BBC rekur ásakanir á hendur ráðamönnum um vanrækslu sem fram koma í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, þeir hafi ekki brugðist við þótt hrun bankakerfisins vegna ofþenslu þess hafi þegar í árslok 2006 verið orðið óumflýjanlegt. ,,Frá febrúar til apríl 2008 lentu Icesave-reikningarnir í tímabundnum vanda þegar um 20% af innistæðum voru teknar út en ýmsir fjölmiðlar í Bretlandi höfðu þá sagt að íslensku bankarnir væru í vanda," segir BBC.
Þá hafi byrjað viðræður milli fulltrúa Landsbankans og breska fjármálaeftirlitsins, FSE, um það hvort rétt væri að gera Icesave að dótturfélagi Landsbankans, aðgerð sem taka myndi sex mánuði. Meðan um var að ræða útibú hafi innistæðurnar í Bretlandi í reynd verið hluti af innistæðum móðurbankans íslenska. En innistæður upp að 50 þúsund pundum hefðu verið tryggðar af bresku innistæðutryggingunni ef Icesave hefði verið breytt í sjálfstætt, breskt dótturfélag Landsbankans.
,,En fyrir Landsbankann hefði breytingin yfir í dótturfélag hins vegar verið síður ákjósanleg lausn af því að þá hefði ekki verið jafn auðvelt fyrir Landsbankann að nota féð sem fólk lagði inn á Icesave-reikningana í daglegum rekstri bankans."
BBC segir að seint í apríl hafi dregið úr því að fólk tæki peningana út af Icesave og þá hafi Landsbankamenn skipt um skoðun, sagt FSE að breytingin væri nú aðeins markmið sem stefnt væri að ,,á næstunni eða til langs tíma".
Financial Times segir m.a. á vef sínum að í skýrslunni sé bent á augljósar vísbendingar um slæm vinnubrögð og lögbrot í bönkunum, þ. á m. að verð hlutabréfa hafi verið hækkað með bellibrögðum. Eftirlitsstofnanir ríkisins hafi verið undirmannaðar og skort reynslu og stærstu eigendur bankanna hafi misnotað aðstöðu sína til að taka stór lán.