Rannsóknarnefnd Alþingis kemst að þeirri niðurstöðu að eiginfjárhlutfall bankanna þriggja hafi í raun verið verulegra lægra en fram kom í uppgjörum þeirra. Þá er átt við eignir að frádregnum skuldum, að teknu tilliti til sérstakra reglna sem gilda um eigið fé fjármálastofnana.
Bankarnir lánuðu verulegar fjárhæðir til kaupa á hlutabréfum í þeim sjálfum. Þær lánveitingar ollu því að bankarnir báru sjálfir umtalsverða áhættu vegna eigin hlutabréfa. Þetta er skýrt á eftirfarandi hátt í skýrslu nefndarinnar:
„Ef slík markaðsáhætta er orðin veruleg innan banka er komin upp sú staða að ef tap verður í rekstri bankans og hlutabréfaverð lækkar í kjölfarið verður afleiðingin aukið tap vegna þessarar markaðsáhættu hlutabréfa bankans. Þannig er geta bankans til þess að takast á við áföll og tap ekki söm og ef hann bæri enga áhættu vegna eigin hlutabréfa.“
Þá er skýrt út að hver króna sem bankarnir fengu í nýtt hlutafé hafi veitt bönkunum möguleika á því að stækka efnahag sinn um 7-10 krónur, án þess að lækka hlutfallið.
Sjá nánar um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.