Eins og sjá má á þessu myndskeiði flæðir vatnið yfir þjóðveg eitt en þessar myndir eru teknar skammt frá Seljalandsfossi. Eins og sjá má nær flóðið yfir gríðarlega stórt svæði og var mjög kröftugt þegar mest var að sögn þeirra sem voru nærri.
Það er hins vegar ljóst að talsvert tjón hefur orðið í flóðinu. Flætt hefur yfir tún á bæjum upp með Markarfljóti. Hlaupvatn fór einnig yfir tún á Þorvaldeyri. Ennfremur er ljóst að tjón hefur orðið á sumarbústöðum.
Óttast var að varnargarðar gæfu sig og að brúin yfir Markafljót myndi eyðileggjast. Samkvæmt upplýsingum frá vatnamælingamanni sem mbl hafði samband við er flóðið nú í rénun þannig að útlit er fyrir að garðarnir haldi. Einnig var gröfumaður sem vinnur við nýju brúnna yfir Markarfljót fenginn til að rjúfa þrjú skörð í þjóðveginn í þeirri von að brúin héldi. Hefðu þeir brostið hefði flóðið að öllum líkindum runnið í sína gömlu farvegi, meðal annars í Þverá.