„Ég hef aldrei séð svona áður“

Seinna hlaupið sem kom í Markarfljót í gærkvöldi var gjörólíkt því fyrra. Hlaupvatnið í fyrra hlaupinu var um 3,5-4 gráða heitt og í því var nánast enginn krapi. Í seinna hlaupinu var vatnið hins vegar við frostmark og ofan á því flaut þykkt lag af ísmolum, oft 5-15 sentimetrar í þvermál.

Svo þykkt var þetta íshröngl að vatnamælingamenn sem voru að taka sýni við bakkana áttu stundum í erfiðleikum með að ná að vatninu. Ég hef aldrei séð svona áður, sagði Gunnar Sigurðsson, sérfræðingur hjá Veðurstofunni, sem var við vatnamælingar seint í gærkvöldi.

Skýringin á þessum mun á hlaupunum tveimur er sú að í fyrra hlaupinu barst vatn úr lóninu fram Markarfljót en í því seinna var hlaupvatn sem gosið hafði brætt. Í spýjunni sem gekk í Svaðbælisána var mikill krapi, líkt og í seinna hlaupinu í Markarfljót í gær. Sigurður Reynir Gíslason, jarðfræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, sagði í gærkvöldi að gossprungan í Eyjafjallajökli væri eflaust að vinna sig inn í nýjan ís. „Svo lengi sem ís er innan öskjunnar er vatnsmatur, svo lengi sem ís er fyrir hendi þá eigum við von á hlaupvatni hér niður,“ sagði hann. „Það er því von á fleiri skotum í Markarfljót á næstu dögum.“

Sigurður Reynir sagði að verið væri að efnagreina sýni sem tekin voru. Þau hefði Steingrímur J. Sigfússon, „flugkappi“ eins og Sigurður nefndi hann, tekið með sér í bæinn.

Afar erfitt er að áætla vatnsmagn í hlaupunum, enda flæmist áin víða. Vatnamælingamönnum var ekki óhætt að vera á Markarfljótsbrú við rennslismælingar og jafnvel þótt þeir hefðu getað verið þar, hefði mælingin verið ófullnægjandi þar sem svo mikið flæddi fram hjá brúnni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka