Af mælingum Veðurstofu Íslands má ráða að gosvirkni undir Eyjafjallajökli hefur enn aukist frá því í dag. Auk þess má á myndum úr vefmyndavélum sjá, að sjóðandi heitt vatn kemur undan Gígjökli. Gufumekkir stíga upp frá vatninu sem að endingu rennur í Markarfljót.
Líkt og greint hefur verið fá í dag hefur gosvirkni aukist. Hins vegar eru engar einhlítar skýringar á því hvers vegna eða hvaða afleiðingar það hafi í för með sér. Af því má þó ráða að ekkert bendi til þess að gosið í Eyjafjallajökli sé á undanhaldi.
Þrátt fyrir að gosvirkni sé að aukast er jarðskjálftavirkni með minnsta móti. Undanfarnar 48 klukkustundir hefur ekki einn jarðskjálfti mælst í eða við Eyjafjallajökul né Mýrdalsjökul, samkvæmt því sem fram kemur á Veðurstofu Íslands.
Næstu daga, eða fram á fimmtudag verður vestan og norðvestanátt og því líkur á öskufalli austur og
suðaustur af eldstöðinni.