Algjörlega mögnuð lífsreynsla

Það var tilkomumikið að líta upp til Gígjökuls og áhrifin …
Það var tilkomumikið að líta upp til Gígjökuls og áhrifin mögnuð að sögn Páls Guðmundssonar. Ljósmynd/Ólafur Örn Haraldsson

„Það er algjörlega magnað að vera hérna, og eins að aka hér inneftir og sjá Merkuraurana,“ sagði Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands. Hann fór inn að Gígjökli í dag ásamt fleirum frá Ferðafélaginu og Vegagerðinni til að kanna aðstæður í Þórsmörk og ástand vegarins.

„Að sitja hér og horfa á átökin er einfaldlega gjörsamlega magnað. Það eru forréttindi okkar Íslendinga að búa hér á þessari ævintýraeyju,“ sagði Páll. „Við höfum setið hér í klukkutíma dolfallnir yfir náttúrufegurðinni og þessum gríðarlegu átökum.“

Páll telur alrangt að eldgosið þurfi að hafa neikvæð áhrif á ferðaþjónustu. Þvert á móti eigi að gera fólki kleift að skoða eldgosið.

„Það á að streyma til okkar fólkið til að fá að fylgjast með slíkum náttúruundrum,“ sagði Páll. Hann segir að Ferðafélagið og ferðaþjónustuaðilar leggi áherslu á að strax verði opnað inn að Gígjökli.

Leiðin þangað er lokuð almennri umferð af öryggisástæðum.

„Fyrir okkur Ferðafélagsmenn og ferðaþjónustuaðila að komast á svæðið og upplifa þetta er mjög mikilvægt. Þetta er gríðarlega mikil upplifun og mikil tækifæri.“

Leiðangursmenn voru á jeppum á 38 tommu og 33 tommu dekkjum og lítið mál fyrir þann síðarnefnda að fara þetta, að mati Páls. Hann sagði að um leið og sjatni í jökulánni, útfallinufrá Gígjökli, verði orðið fært inn í Þórsmörk.

Gríðarlegar drunur við Gígjökul

Gríðarlegar drunur voru inn við Gígjökul, bæði frá sjálfum gosstöðvunum og eins úr skriðjöklinum þar sem hitinn tókst á við ísinn.

„Það er enn töluvert mikið eftir af Gígjöklinum og hér hrynja stórir ísjakar. Það er mikil barátta í gangi og stórbrotið að sjá hraunið slettast hátt upp í loft og svo að sjá hrynja úr jöklinum,“ sagði Páll. Gríðarmikil gufumyndun var í Gígjökli í á að giska 500-700 metra hæð.

Vestlæg átt var við rætur Gígjökuls og bar hún mikla ösku- og gufumökkekkina austur yfir Eyjafjallajökul og austur á Mýrdalsjökul. Eins bar hún eitraðar lofttegundir frá leysingavatninu frá leiðangursmönnum.

Leiðin er lítið skemmd

Bjarni Finnsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni í Vík, sagði að leiðin inn undir Gígjökul sé lítið skemmd. Þó sé aðeins farið af henni og um einn kílómeter sem hafi horfið. Bjarni sagði að leiðin hafi vanalega horfið á þeim kafla yfir veturinn. Hann sagði að mikið vatn bærist frá Gígjökli og taldi að affallið væri ófært bílum.

„Það er bara eins og Markarfljótið,“ sagði Bjarni. Hann taldi að vegurinn fyrir innan lónið sé eins og eftir hefðbundinn vetur, sundurskorinn á köflum. En en er leiðin inn að Gígjökli fær öllum jeppum?

„Þetta er tuðrótt eins og það er núna: Það er betra að vera á eitthvað breyttum bílum,“ sagði Bjarni.
 

Greina mátti bíla leiðangursmanna í vefmyndavél Vodafone. Bílarnir tveir eru …
Greina mátti bíla leiðangursmanna í vefmyndavél Vodafone. Bílarnir tveir eru eins og litlir deplar á eyrinni handan við útfallið frá Gígjökli. Leiðangursmenn gengu upp á jökulgarðinn hægra megin við útfallið. www.vodafone.is/eldgos
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka