Askan frá Eyjafjallajökli teygir anga sína í átt til Evrópu á ný

Öskufallsspá til hádegis í dag.
Öskufallsspá til hádegis í dag.

Askan frá Eyjafjallajökli hefur breiðst út á nýjan leik í háloftunum og teygt anga sína í átt til Evrópu með breyttum vindáttum. Ekki er um sama magn og þéttleika öskunnar að ræða og fyrstu dagana eftir eldgosið og ekki útlit fyrir að millilandaflug til og frá Evrópu raskist að neinu marki.

Vélar í millilandaflugi fljúga yfir öskuna og á svonefndum rauðum svæðum neðan 20 þúsund feta flughæðar, þar sem flugfélög hafa heimild til flugs samkvæmt ákveðnum skilyrðum og leyfum, er flugvöllum ekki lokað.

„Á svörtum svæðum“ er flugumferð með öllu bönnuð og samkvæmt öskudreifingarspá bresku veðurstofunnar frá í gær voru allra nyrsti hluti Skotlands og hluti Írlands í hættu á að fá slíka bletti yfir sig. Á hádegi í dag ættu þeir að vera farnir. Engar líkur voru á að millilandaflug frá Íslandi myndi raskast.

Ásgeir Pálsson hjá Isavia, áður Flugstoðum, segir öskumagnið nú vera langtum minna en áður, þegar askan barst til Evrópu, þó að gosvirknin hafi aukist á ný. Með því að fá heimild til flugs innan rauða svæðisins skuldbinda flugfélögin sig til að skrásetja flugtímana sérstaklega og auka viðhald á vélunum. Að sögn Ásgeirs getur hætta verið á auknu sliti á mótorunum en öskumagnið upp að 20 þúsund fetum það lítið að engin hætta er á að hreyflarnir stöðvist.

Írsk flugmálayfirvöld tilkynntu í gærkvöldi að lokað yrði fyrir flugumferð til hádegis, m.a. í Dublin og Shannon, en samkvæmt spá bresku veðurstofunnar, sem meðfylgjandi kort byggir á, ætti staðan á hádegi að vera orðin betri fyrir Íra.

Samgönguráðherrar aðildarríkja ESB eiga fund í Brussel í dag þar sem ræða á tillögur um sameinaða lofthelgi Evrópusambandsins.

Eldgosið í Eyjafjallajökli hefur haft gríðarlega áhrif
Eldgosið í Eyjafjallajökli hefur haft gríðarlega áhrif mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka