Bannið hefur áhrif á hundruð flugferða

Flugbann um írska flugvelli, Norður-Írland, Færeyjar og hluta Skotlands, hefur haft áhrif á hundruð flugferða það sem af er degi. Heimilt verður að fljúga á ný klukkan 12 að íslenskum tíma, klukkan 13 að staðartíma. Í apríl lá flug niðri í stórum hluta Evrópu í sex daga vegna ösku frá eldgosinu í Eyjafjallajökli.

Í tilkynningu frá flugmálayfirvöldum á Írlandi kemur fram að ákvörðun um lokun í morgun hafi verið tekin  til þess að tryggja öryggi farþega og áhafna.

Ekki hefur þurft að banna flug annars staðar á Bretlandseyjum í dag.
Allt flug Aer Lingus til og frá flugvöllunum í Dublin, Cork, Shannon og Belfast var aflýst frá klukkan 7 að staðartíma í morgun til klukkan 13 í dag.

Ryanair mun ekki fljúga til og frá Írlandi og Norður-Írlandi fyrr en eftir klukkan 14 að staðartíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka