Starfsmenn Vegagerðarinnar munu í dag kanna aðstæður á leiðinni inn í Þórsmörk. Veginn þar tók af á um það bil sex kílómetra kafla í vatnsflóði á öðrum degi gossins úr Eyjafjallajökli og hefur leiðin síðan verið ófær. „Ég vona að við vitum eftir þessa könnunarferð hvað þarf að gera á þessum slóðum,“ sagði Svanur Bjarnason, umdæmisstjóri Vegagerðarinnar á Suðurlandi, í samtali við Morgunblaðið.
Svanur segir að ef hægt verður að fylgja sömu leið og áður í Þórsmörk ættu vegabætur aðeins að vera einföld jarðýtuvinna, sem ekki er kostnaðarsöm. Þurfi hins vegar að færa vegstæðið horfi málið öðruvísi við og framkvæmdir gætu kostað nokkra fjármuni.