Svartur gosmökkur steig upp frá eldstöðinni í Eyjafjallajökli í morgun þegar til hennar sást. Þoka hafði byrgt sýn en svo létti skyndilega til og fór að sjást til gossins í gegnum vefmyndavélar. Svo virðist sem gufumökkurinn frá hraunstraumnum undir Gígjökli sé ívið minni í dag en i gær.
Nokkrir jarðskjálftar hafa mælst undir Eyjafjallajökli síðan snemma í gærmorgun. Sigurlaug Hjaltadóttir, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, sagði að upptök flestra jarðskjálftanna virðist vera djúpt í jörðu, á 14-18 km dýpi, undir jökulhettunni.
Hún sagði að af fyrri jarðskjálftum á þessi dýpi að ráða sé hugsanlega um áframhaldandi kvikustreymi að ræða undir jöklinum.
Dregið hefur úr gosóróa og í morgun var hann orðinn svipaður og hann var fyrripart síðastliðins sunnudags og dagana þar á undan. Vatnshiti undir Markarfljótsbrú hefur einnig lækkað en í gærmorgun kom gusa af heitu vatni og þá var óróinn mikill.
Þótt dregið hafi úr gosóróanum á mælum þá er hann enn hár. Sigurlaug sagði hugsanlegt að suðuvirkni við hrauntauminn hafi áhrif á óróamælingarnar. Það er þó óstaðfest.