Óttast frekari tafir á flugi

Aska frá eldgosinu í Eyjafjallajökli getur borist inn á flugsvæðið yfir norðurhluta Bretlands næstu daga, að því er fram kemur í frétt Reuters. Spáð er vestan- og norðvestanátt og líkur á öskufalli til austurs og suðausturs frá eldstöðinni.

Að sögn Sigurlaugar Hjaltadóttur, jarðeðlisfræðings á Veðurstofu Íslands, hefur vindáttin snúist í norðvestur sem þýðir að askan blæst í átt að norðurhluta Bretlands. Er spáin svipuð næstu daga en þetta gæti breyst í byrjun næstu viku.

Í morgun var flugvöllum á Írlandi lokað í nokkrar klukkustundir. Hafa flugmálayfirvöld varað við því að jafnvel þurfi að loka flugvöllum á ný næstu daga. 

Samgönguráðherrar ríkja Evrópusambandsins ræddu flugöryggismál á fundi sínum í Brussel í dag. Meðal annars um þann kostnað sem flugfélög þurfti að taka á sig vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Ákváðu þeir að setja sameiginlegar reglur varðandi flug í eldgosaösku.

Samgönguráðherra Spánar, Jose Blanco, segir nauðsynlegt að ríki Evrópu vinni nánar saman að svona málum.

Talið er að kostnaður flugfélaganna nemi á milli 1,5-2,5 milljörðum evra vegna þess að þau þurftu að aflýsa um 100 þúsund flugferðum í síðasta mánuði vegna gossins. Samgönguráðherrarnir fara hins vegar varlega í að taka ákvörðun í að greiða flugfélögum bætur vegna slíkra náttúruhamfara. 

Eldgosið í Eyjafjallajökli hefur valdið miklum röskunum á flugi í …
Eldgosið í Eyjafjallajökli hefur valdið miklum röskunum á flugi í Evrópu Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka