Hjarðhegðun eldstöðva

Hekla
Hekla mbl.is/SASI

Sigmundur Einarsson, jarðfræðingur, fjallar í grein á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands um breytingar sem orðið hafa á eldstöðvum á Suðurlandi um miðja síðustu öld. 

Hafa þær allar sem hann tiltekur í greinni fyrir utan Tindfjöll og Torfajökull,  á einhvern hátt breytt um hegðun um eða eftir 1950.

„Og hver veit nema þessar tvær eigi eftir að koma okkur á óvart í náinni framtíð. Tímabilið sem taflan nær til er aðeins rúmar þrjár aldir en gæti að líkindum allt eins verið nokkrum öldum lengra án þess að niðurstaðan breyttist. Og þá kemur að stóru spurningunni. Getur það virkilega verið rétt að eldstöðvaknippið á Suðurlandi hafi allt breytt um hegðun á því sem næst einu augnabliki? Og jafnvel að áhrifin nái til nærliggjandi eldstöðva eða komi jafnvel frá þeim? Hvað gæti hugsanlega valdið því að eldstöðvarnar hagi sér eins og þær hreinlega viti hver af annarri?," skrifar Sigmundur.

Virkni eldfjalla getur breyst mikið þó ekki komi til goshlé. Þau ganga í gegnum eins konar gosfasa, t.d. tímabil sem einkennast af tiltekinni gerð eldgosa. Sem dæmi má nefna að fyrir um 70 þús. árum hlóðust upp allmargir hraungúlar (líparítfjöll) umhverfis Torfajökulsöskjuna á tiltölulega skömmum tíma sem kannski varði í nokkur þúsund ár. Þá mynduðust t.d. Rauðfossafjöll, Laufafell og Kirkjufell, segir í grein Sigmundar.

„ Vegna þess hve líftími eldstöðva er langur á mælikvarða mannsævinnar virðast þær bæði dyntóttar og óútreiknanlegar. En þrátt fyrir þennan mun geta einstakar eldstöðvar verið ótrúlega fyrirsjáanlegar. Nú vita til dæmis allir að Hekla gýs nokkuð reglulega með um það bil 10 ára millibili og er talin komin að falli. Skyldi hún standa undir væntingum? Enginn átti von á eldgosi þegar drottning íslenskra eldfjalla tók að gjósa vorið 1970.

Gosið í Heklu árið 1970 kom jarðvísindamönnum algerlega í opna skjöldu enda ekki í neinu samræmi við þekkta hegðun fjallsins. Liðin voru 23 ár frá upphafi síðasta goss í fjallinu. Fjallið hafði áður gosið 14 sinnum á sögulegum tíma og hafði hlé á milli gosa að jafnaði verið um 70 ár. Stysta hlé hafði varað í 39 ár. Eldgos árið 1980 kom því ekkert síður á óvart. Enn gaus Hekla árið 1991 og þegar fjallið gaus árið 2000 hafði ný og breytt hegðun verið tekin í sátt. Og nú er enn von á gosi eftir 10 ára hlé," skrifar Sigmundur.

Greinin í heild

Eldgosið í Eyjafjallajökli
Eldgosið í Eyjafjallajökli mbl.is/SASI
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert