Þrifið á Skógum

Unnið að hreinsun á byggðasafninu á Skógum í dag.
Unnið að hreinsun á byggðasafninu á Skógum í dag. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Á fjórða tug starfsmanna safna, svo sem Þjóðminjasafns og Listasafns Íslands, eru að störfum á byggðasafninu á Skógum. Er hópurinn að þrífa muni safnsins sem hefur orðið illa fyrir barðinu á öskufalli úr eldgosinu í Eyjafjallajökli. Munir safnsins eru ekki ónýtir en talsverð aska hefur smogið víða.

Þrátt fyrir eldgosið er byggðasafnið á Skógum opið en það var opnað að nýju á laugardag.

Þórður Tómasson er safnvörður Byggðasafnsins í Skógum. Hann var heiðraður á málþingi sem efnt var til í nóvember í fyrra í tilefni af 60 ára afmælis safnsins sem hann hefur byggt upp.

Safnið í Skógum er í stöðugri þróun. Það var hefðbundið byggðasafn en fleiri safndeildir hafa bæst við, síðast samgöngusafnið 2002. Nýjasta framkvæmdin er bygging liðlega 1.300 fermetra geymsluhúsnæðis sem bætir út brýnni þörf því munir safnsins eru í geymslum víða um sýslurnar. Bygging hússins er hafin.

Þórður er tæplega níræður og vinnur stöðugt að málefnum safnsins. „Það mega allir vera ánægðir enda hafa menn staðið þétt að baki mér í gegnum árin. Þetta er fjölþættasta og stærsta safn utan Reykjavíkur og með mesta gestafjöldann líka. Við höfum fengið 43.400 gesti á þessu ári. Þetta er líka stórt fyrirtæki, með upp undir tuttugu manns í vinnu yfir sumartímann,“ sagði Þórður í samtali við Morgunblaðið í nóvember.

Nýverið var haft eftir Þórði að tveir ömurlegustu morgnar í hans lífi voru þegar Hekla byrjaði að gjósa og svo núna þegar gosið byrjaði í Eyjafjallajökli.

Frá Byggðasafninu í Skógum
Frá Byggðasafninu í Skógum mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert