Fljúga frá Keflavík

Vélar Iceland Express til London, Kaupmannahafnar og Berlínar fara frá Keflavíkurflugvelli síðar í dag, þar sem flugvöllurinn hefur verið opnaður. 

Vélarnar til London og Kaupmannahafnar fara skömmu eftir hádegi, en sú til Berlínar í kvöld. Farþegar sem eiga bókað flug með félaginu eru þó beðnir enn sem fyrr að fylgjast vel með, því áætlun getur breyst með stuttum fyrirvara.

Icelandair hefur flogið fjórar ferðir frá Akureyri það sem af er morgni. Flug frá Keflavík hefst síðdegis og þá er tekin stefnan á Boston, Kaupamannahöfn og Sevilla á Spáni og svo verður flug skv. áætlun strax í fyrramálið, enda gefa öskuspár ekki tilefni til að ætla annað.

Allt innanlandsflug hjá Flugfélaginu Erni er nú hafið og fór fyrsta vél í loftið til Hafnar í Hornafirði kl 08:45. Reiknað er með að allt flug verði með eðlilegum hætti í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka