Gosvirknin helst stöðug

Gosvirknin undir Eyjafjallajökli virðist nokkuð stöðug núna. Mökkurinn hefur aukist lítillega síðdegis. Áfram er búast við sveiflum í gosvirkninni með tilheyrandi gjóskufalli. Ekkert bendir til þess að gosinu sé að ljúka. Þetta kemur fram í minnisblaði frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.

Matið byggir á jarðskjálftamælum, vatnsrennsli í Markarfljóti, GPS mælum, veðurradar, eldingamæligögnum bresku veðurstofunnar, MERIS gervihnattamyndum og athugunum úr flugvélum.

Gosvirkni virðist svipuð og í gær. Sprengivirkni jókst aftur upp úr hádeginu með aukinni gjóskuframleiðslu og hækkandi gosmekki. Gosið er að mestu sprengigos en lítill hraunstraumur er virkur innan hrauntraðarinnar sem myndaðist í aðal hraunfasa gossins.

Samkvæmt veðurratsjá er gosmökkurinn að jafnaði um 5-6 km yfir sjávarmáli og stefnir suðsuðaustur samkvæmt veðurfræðingum og gervitunglamynd MERIS um miðjan dag í dag. Vestlægur vindur er við yfirborð og hægur vindur, en norðanstæður í hærri lögum.

Níu eldingar mældust á eldingamælum bresku veðurstofunnar á
tímabilinu milli kl. 11:50 og 15:17 í dag. Engar tilkynningar hafa borist um drunur. Rennsli við Gígjökul er enn lítið.

Órói undir Eyjafjallajökli er stöðugur og hefur nú verið svipaður síðustu sólarhringa. Örlítil aukning varð þó seinni partinn í gær og í nótt á lægri tíðniböndunum. Undir Eyjafjallajökli mældust 16 jarðskjálftar seinasta sólarhring, flestir á um 18 – 20 km dýpi.





Eldgosið í Eyjafjallajökli heldur áfram.
Eldgosið í Eyjafjallajökli heldur áfram. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka