Öskugrátt fé í Skaftártungu

Gríðarlegt öskufall er frá eldgosinu.
Gríðarlegt öskufall er frá eldgosinu. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Mikið öskufall úr Eyjafjallajökli hefur verið í Skaftaártungu í nótt sem hefur farið saman við rigningu. „Það er erfitt að átta sig á umfangi. Þegar aska og vatnið blandast saman er þetta ein klessa,“ sagði Gísli Halldór Magnússon bóndi í Ytri - Ásum í Skaftártungu við mbl.is nú fyrir stundu.

Sauðburður er langt kominn í Ytri Ásum hefur hefur Gísli Halldór verið með féð í gerðum heima við fjárhús. „Ærnar nýbornar og lömbin hafa verið úti í nótt og eru öskugrá á litinn. Ef ekki rætist úr svo hægt verði að koma fé á beit þá stefnir í talsverð vandræði hér,“ segir bóndinn sem hefur þurft að spúla ösku af vélum og tækjum í nótt. Bílar og vinnuvélar séu huldar ösku og húsþök eru svört.

„Öskufallið núna er það mesta sem komið hefur hér. Við fengum gusu í upphafi gossins en sluppum síðan,“ segir Gísli Halldór, sem telur illgerlegt að mæla magn öskunnar þegar hún blandast saman við vatn.

Veðurspáin í spáir í dag áframhaldandi öskufalli austur og suðaustur af Eyjafjallajökli og sunnan hennar á morgun. Jarðvísindastofnun búast áfram við sveiflum í gosvirkninni með tilheyrandi gjóskufalli. Ekkert bendir til þess að gosinu sé að ljúka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka