Gosmökkurinn hærri í dag en gær

Gosmökkurinn frá eldgosinu í Eyjafjallajökli
Gosmökkurinn frá eldgosinu í Eyjafjallajökli mbl.is/Júlíus

Jarðvísindamenn segja, að gosmökkurinn frá eldgosinu í Eyjafjallajökli hafi verið talsvert hærri í dag en í gær og ekkert bendi til þess að gosinu sé að ljúka. Í flugi sást efsti hluti gosmakkar og neðri hluti Gígjökuls en allt þar á milli var hulið skýjum. Gosmökkurinn náði um 5 km hæð yfir gosstöðvum, grár á lit og nokkuð stöðugur.

Fram kemur í skýrslu jarðvísindamanna, að mjög hægur vindur sé ofan við gosstöðvarnar og óstöðugt loft fyrir sunnan land, en þetta hafi hvort tveggja áhrif á hæð öskuskýs. 

Tilkynningar um öskufall hafa borist frá Berjanesi og fleiri stöðum undir Eyjafjöllum. Tilkynnt var um öskufall í Drangshlíð og Skarðshlíð frá því kl. 6 í morgun, með smá hléi um hádegisbil og aftur um kl. 16. Frá Skógum var tilkynnt um öskufall frá miðnætti til morguns. Askan er nú aftur heldur fínni en undanfarna daga.

Tuttugu eldingar hafa mælst á eldingamælum bresku veðurstofunnar frá því í gærkvöldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert