Kolniðamyrkur við jökulinn

Myndin var tekin í nágrenni Eyjafjallajökuls í kvöld.
Myndin var tekin í nágrenni Eyjafjallajökuls í kvöld. mynd/lögreglan á Hvolsvelli

Mikið öskufall er nú í nágrenni Eyjafjallajökuls og að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli er skollið á kolniðamyrkur við Þorvaldseyri. Víða sé skyggni aðeins um tveir metrar.

Að sögn lögreglu eru aðstæður þannig að fólk heldur sig innandyra. Frá Holtsá og austur að Skógum er á köflum kolniðamyrkur, en lögreglan segir að öskufallið frá Eyjafjallajökli sé gríðarlega mikið þessa stundina.

Að sögn Veðurstofu Íslands er gosmökkurinn grár og stefnir í suðaustur. Hæð hans yfir sjávarmáli er að jafnaði um 6 km samkvæmt veðurratsjá en fer hæst í um 9 km. Mjög hægur vindur er ofan við gosstöðvarnar, og óstöðugt loft fyrir sunnan land, en þetta hefur hvort tveggja áhrif á hæð öskuskýsins.

Tilkynningar hafa borist um öskufall frá Berjanesi og fleiri stöðum undir Eyjafjöllum. Drangshlíðar- og Skarðshlíðarbæir tilkynna um öskufall frá því kl. 6 í morgun, með smá hléi um hádegisbilið og aftur um kl. 16. Frá Skógum er tilkynnt um öskufall frá miðnætti til morguns. Askan er nú aftur heldur fínni.

Svona var víða umhorfs.
Svona var víða umhorfs. mynd/lögreglan á Hvolsvelli
Öskuskýið byrgir mönnum sýn.
Öskuskýið byrgir mönnum sýn. mynd/lögreglan á Hvolsvelli
Gosmökkurinn frá Eyjafjallajökli er grár.
Gosmökkurinn frá Eyjafjallajökli er grár. mynd/lögreglan á Hvolsvelli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert