Bera ekki á tún undir A-Eyjafjöllum

Aska er út um allt á Önundarhorni og fleiri bæjum …
Aska er út um allt á Önundarhorni og fleiri bæjum undir A-Eyjafjöllum. Rax / Ragnar Axelsson

„Það er útséð um að það verður ekkert borið á tún undir Austur-Eyjafjöllum á þessu sumri,“ segir Sigurður Þór Þórhallsson, bóndi á Önundarhorni undir Eyjafjöllum. Sigurður var í vor byrjaður á jarðvinnslu með það að markmiði að sá fræi, en hann segist vera hættur við því að nær stöðugt öskufall sé frá Eyjafjallajökli.

Sigurður segir að ástandið sé verst á svæðinu frá Steinum að Hrútfelli, en bændur fyrir austan kalli þetta „svarta svæðið“. Hann segir ljóst að bændur á þessu svæði muni ekki reyna að heyja túnin í sumar. „Úr fjarlægt lítur þetta ekki illa út. Það koma grænir toppar upp úr túnunum, en þegar maður skoðar þetta betur þá sér maður að stráin eru fá.“


Sigurður segir að jafnvel þó að eitthvert gras komi upp úr þessum túnum sé óvíst að það verði nothæft fóður. Askan fari í heyið og það sé tæplega gott fyrir skepnur að éta öskublandað hey. Hann segist raunar hafa lesið um að gripir hafi drepist eftir að hafa étið hey sem heyjað var á öskutúnum.

Sigurður er með um 230 nautgripi í fjósinu í Önundarhorni. Hann segir að hann muni ekki setja þá út í sumar ef gosið haldi áfram. Hann á talsvert eftir að heyjum, en segir ljóst að hann þurfi að kaupa hey eða leita sér að túnum til að heyja í sumar.

„Það er allt framkvæmanlegt,“ sagði Sigurður þegar hann var spurður hvernig honum litist á framhaldið. Hann sagði að bændur á svæðinu væru núna að íhuga stöðu sína og það væri ekki víst að allir kæmust að sömu niðurstöðu og hann, að reyna að halda áfram búskap.

Sigurður er bæði með mjólkurframleiðslu og nautaeldi. Hann hefur keypt nautkálfa af bændum í nágrenninu sem hann hefur alið í sláturstærð. Hann sagðist vera hættur þessu í bili en ætti talsvert af nautum sem ættu eftir að ná sláturstærð.

Nokkur stór kúabú eru undir Eyjafjöllum og þau þurfa að afla mikilla heyja á hverju sumri. Sigurður sagðist þurfa á um 1700 rúllum að halda fyrir búið í Önundarhorni.

Sigurður hefur ekki bara þurft að glíma við öskufall því að um helmingur túnanna á Önundarhorni skemmdist þegar Svaðbælisá flæddi yfir bakka sína sama dag og gosið hófst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert