Keflavíkurflugvöllur lokast

Keflavíkurflugvöllur.
Keflavíkurflugvöllur. Árvakur

Útlit er fyrir að Keflavíkurflugvelli verði lokað síðar í dag vegna öskuskýsins frá Eyjafjallajökli og Icelandair hefur fellt niður flug til Kaupmannahafnar, London, New York, Boston og Seattle síðdegis.

Jafnframt hefur verið fellt niður flug frá Kaupmannahöfn, London, Manchester/Glasgow, Osló, Stokkhólmi, Helsinki, Frankfurt, París, Amsterdam síðdegis í dag, og flug frá New York, Boston og Seattle í kvöld, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Icelandair.

Sett hafa verið upp ný flug, frá Kaupmannahöfn (tvö flug), Osló, Stokkhólmi, Helsinki, London og Manchester/Glasgow í nótt og er gert ráð fyrir komu þeirra til Keflavíkurflugvallar þegar hann opnar um klukkan 06.00 í fyrramálið.

„Í dag erum við ekki aðeins að glíma við lokun Keflavíkurflugvallar, heldur einnig takmarkaða umferð um flugvelli á Bretlandseyjum og víðar. Ekki er unnt að fljúga í nótt frá Amsterdam, París og Frankfurt vegna næturlokana á flugvöllunum, en reynum að halda flugstarfseminni gangandi eins og unnt er við þessar erfiðu aðstæður,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair.

Flugumferð hefur verið takmörkuð sunnan- og vestanverðri Svíþjóð og hugsanlegt er að flugvöllum í Noregi verði lokað í kvöld vegna öskuskýsins.

Flugumferð var takmörkuð í sunnan- og vestanverðri Svíþjóð, frá Strömstad til Ystad, að sögn fréttavefjar Dagens Nyheter í morgun. Útlit er fyrir að flugsamgöngur raskist á svæðinu í allan dag.

Öskuský nálgast Noreg og líklegt er að það verði yfir suður- og vesturströnd landsins í kvöld. Hugsanlegt er að loka þurfi flugvöllum á svæðinu, meðal annars í Bergen og Stafangri, að því er fram kemur á fréttavef norska dagblaðsins Aftenposten.

Lofthelgi Færeyja er lokuð vegna öskuskýsins. Gert er ráð fyrir því að öskuskýið verði komið í lofthelgi Danmerkur um tvöleytið í dag en ekki er talið að það raski flugumferðinni þar, að sögn fréttavefjar danska blaðsins Politiken.

Fyrr í morgun var skýrt frá því að flugvöllum í Hollandi, meðal annar Schiphol, hefði verið lokað. Tveimur stærstu flugvöllum Lundúna Heathrow og Gatwick, var lokað í nótt en þeir voru opnaðir að nýju í morgun. Flugvellir á Írlandi, Norður-Írlandi, Norður-Englandi og Skotlandi hafa einnig verið lokaðir.´

Áætlað er að um þúsund flugferðum verði aflýst í Evrópu í dag vegna öskuskýsins, að sögn evrópsku flugstjórnarstofnunarinnar Eurocontrol.

Útlit er fyrir að Keflavíkurflugvöllur verði lokaður síðar í dag vegna öskuskýsins frá Eyjafjallajökli, samkvæmt upplýsingum frá Flugstoðum. Gert er ráð fyrir því að Reykjavíkurflugvöllur verði lokaður fram eftir degi og hugsanlegt er að flugvellirnir á Akureyri og Egilsstöðum verði lokaðir í kvöld, eins og staðan er núna. Ný spá verður birt á hádegi í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka