Mikil röskun hefur verið á flugi um Evrópu í nótt og í morgun vegna ösku frá eldgosinu í Eyjafjallajökli. Keflavíkurflugvelli verður væntanlega lokað eftir hádegið og hefur öllu flugi um völlinn verið aflýst. Allt innanlandsflug liggur niðri. Fjöldi flugvalla er lokað á Bretlandseyjum og í Hollandi.
Stærsta flugvelli Evrópu Heathrow í Lundúnum var lokað í sex tíma í nótt ásamt Gatwick flugvelli í nágrenni Lundúnaborgar. Þetta hefur þýtt miklar tafir á öllum flugferðum um vellina í dag.
Hollensku flugvellirnir Schiphol og Rotterdam voru opnaðir á ný á hádegi eftir að hafa verið lokaðir í sjö klukkutíma í nótt og morgun.