Hlynur Orri Stefánsson
Ferðaþjónustuaðilar á Suðurlandi hafa áhyggjur af sumrinu. Lítið hefur verið um bæði innlenda og erlenda ferðamenn á svæðinu frá því gos hófst í Eyjafjallajökli og mun minna verið bókað en á sama tíma undanfarin ár.
„Við finnum klárlega fyrir samdrætti,“ segir Elías Guðmundsson, sem rekur Hótel Vík og Víkurskálann. Gistirými hafi verið illa nýtt í apríl og maí.
Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra fór í gær yfir stöðu mála með ferðaþjónustufyrirtækjum á Suðurlandi. „Það hefur orðið töluverður samdráttur og segja má að svörtustu spár hafi ræst.“
Hún segir mikilvægt að snúa stöðunni fyrirtækjunum í hag og kynna Suðurlandið sem spennandi kost. Í framhaldi af fundunum í gær verður farið í að stilla saman strengi ferðaþjónustuaðila, ferðamálayfirvalda og sveitarstjórna á Suðurlandi. Þá verður upplýsingagjöf bætt, bæði til útlanda og eins til þeirra sem þegar eru komnir hingað til lands og vilja heimsækja svæðið.