„Nú er bara óskandi að gosinu sé endanlega lokið, en maður hefur allan vara á sér,“ segir Berglind Hilmarsdóttir, bóndi á Núpi undir Vestur-Eyjafjöllum.
Bændur í sveitinni eru komnir á fullt í aðkallandi störf, nú þegar eldgosinu í Eyjafjallajökli virðist lokið. Víða mátti í gær sjá bændur við hreinsunarstörf heima við bæi og aðrir voru að bera á tún, plægja akra eða í öðrum hefðbundnum vorverkum.
„Í sjálfu sér er staðan hér í sveitinni enn mjög óljós. Það er mjög líklegt að heyin í sumar verði ekki alveg fyrsta flokks enda er víða aska í túnunum. Hvaða afleiðingar slíkt getur haft á búskap hér til lengri tíma litið er ómögulegt að segja. Það gætu leynst steinar í brauðinu,“ segir Berglind sem býr á Núpi III ásamt Guðmundi Guðmundssyni eiginmanni sínum og eru þau með um 40 kýr og 100 kindur.