Steinunn Sveinsdóttir Barkved sem býr í Sola sem er rétt utan við Stavanger er ekki í vafa um að steinar sem hún hefur fundið í fjörunni rétt við heimili sitt séu gosmolar sem eigi upptök sín frá gosstöðvum í Eyjafjallajökli.
„Ég veitti athygli þremur skrýtnum steinum á ströndinni sem ég er alveg viss um að eru hraun- eða vikurmolar. Það er meira að segja brennisteinslykt af einum þeirra. Þegar ég fór síðar á ströndina sá ég að fleiri mola hafði rekið á land,“ segir Steinunn.
Hún er hálfíslensk og segist þekkja vel til á Íslandi og hafa búið hér um skeið. Hún velkist ekki í vafa um að þetta séu hraunmolar og að ekkert norskt sé við þá.