„Framsóknarflokkurinn er í bullandi kosningabaráttu á svæðinu og telur sig greinilega eiga mikið undir í þessu máli. Það sem þarna er að gerast er að framsóknarmenn, bæði fyrir norðan og á þingi, eru að draga sig út úr þessari sátt að mínu mati,“ segir Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra.
Tilefnið er hörð gagnrýni Höskuldar Þórhallssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, á afstöðu Samfylkingarinnar til álversuppbyggingar á Bakka, gagnrýni sem Katrín telur ómálefnalega.
Katrín vísar þeim ummælum Höskuldar jafnframt á bug að töf á uppbyggingu álvers á Bakka hafi kostað þjóðarbúið milljarða, ef ekki milljarðatugi, með vísan til afstöðu Alcoa til uppbyggingar á svæðinu. Þá telur Katrín að Húsvíkingar og nærsveitarmenn þurfi meira en eina verksmiðju á svæðið.
Útúrsnúningur
Katrín segir Höskuld snúa út úr vinnsluferli á frumathugun stjórnvalda á möguleikum til atvinnuuppbyggingar á Húsavík og nágrenni.
„Það var ljóst frá upphafi að það sem er verið að kynna er frumathugun og hún sýnir að enn eru sex aðilar uppi á borðinu sem enn er verið að ræða við. Tveir eru lengst komnir. Fjórir skemmra á veg komnir.
Við hefðum líka alveg getað sleppt að kynna frumathugun til að halda ferlinu opnu ef þetta yrðu viðbrögðin, vegna þess að það stóð aldrei annað til en að ákvörðun um kaupanda yrði tekin með haustinu. Þannig að þetta er bara leikaraskapur og ekkert annað, leikaraskapur framsóknar í kosningabaráttu.“
Tólf aðilar hafa lýst yfir áhuga
- Hvaða aðilar hafa sýnt áhuga á að kaupa orku á svæðinu?
„Tólf aðilar hafa farið í gegnum formlega skoðun hjá verkefnastjórninni. Síðan er einn aðili sem formaður verkefnastjórnar hefur verið að ræða við undanfarna daga þannig að hann er þá þrettándi aðilinn sem kemur þarna inn. Sex hafa verið metnir ýmist í A- eða B-flokk. Og síðan er einn sem ekki hefur verið settur í flokk sem þýðir að án þess að verkefnastjórnin hafi farið út og markaðssett svæðið að þá hafa þrettán aðilar komið til hennar til viðræðna,“ segir Katrín og heldur áfram.
„Síðan má ekki gleyma því að við erum að tala um að markaðssetja svæðið til atvinnuuppbygginar. Ætlar Höskuldur að fúlsa við því? Þetta snýst ekkert um að menn séu þar með að hafna stórum kaupanda að orkunni. Heldur Höskuldur að það sé eingöngu byggt upp á orku?
Við erum að tala um að fara í umfangsmikla og markvissa atvinnuuppbyggingu á þessu svæði sem er byggð á orku og öðrum kostum. Ég trúi því ekki að þingmaður norðausturkjördæmis, eða bæjarfulltrúar í Húsavíkurbæ, ætli að hafna þessu.“
- Hvað liggur í þessari markaðssetningu og hvernig ganga ummæli Höskuldar í berhögg við hana?
Niðurstaðan verður kynnt í haust
„Þau ganga í berhögg við hana með þeirri túlkun að í skilaboðum mínum hafi falist að það eigi enn á ný að finna eitthvað annað en álver. Þetta er alrangt vegna þess að þetta sagði ég aldrei nokkurn tímann. Það sem við erum að gera er að við erum í miðju ferli hjá þessari verkefnastjórn og kynnum frumathugun í málinu.
Í viljayfirlýsingunni stendur að í haust ætlum við að kynna niðurstöðu nefndarinnar, endanlega niðurstöðu. Og það eru þarna fyrirtæki sem vissulega hafa forskot á þessum tímapunkti og geta haft það áfram í haust. Við getum ekkert sagt til um það.
Það sem Höskuldur er síðan að slíta úr samhengi er að við höfum sagt að við ætlum að fara út og kynna þetta svæði sem áhugaverðan fjárfestingarkost til atvinnuuppbyggingar. Og það er ekki eingöngu byggt á orkusölu. Þetta er slitið úr samhengi.“
Fráleitt að milljarðatugir hafi tapast
- Hvernig svarar þú þeirri gagnrýni Höskuldar að Samfylkingin hafi þvælst fyrir byggingu álvers á Bakka og þar með kostað þjóðarbúið milljarða, ef ekki milljarðatugi?
„Ef hann getur sýnt mér fram á að Alcoa hafi verið tilbúið að taka ákvörðun á fyrri stigum er þetta hugsanlega rétt hjá honum. Þetta er bara ekki þannig vegna þess að það hefur komið skýrt fram að yfirmenn Alcoa gáfu það út á fundi í iðnaðarráðuneytinu í október 2008 að þeir tækju í fyrsta lagi ákvörðun eftir fjögur ár.
Þannig að ferlið sem ég setti málið í varð til þess að koma atvinnuuppbyggingu þarna á hreyfingu og líka til að víka málið út, vegna þess að við þurfum meira en eina verksmiðju ef við ætlum að byggja myndarlega upp á þessu svæði.“
- Hvernig uppbyggingu sérðu fyrir þér og hvenær gæti hún farið af stað?
„Ég sé til dæmis fyrir mér stóra uppbyggingu á sviði heilsutengdrar ferðaþjónustu og þar er til dæmis verkefni sem við höfum verið að vinna að í iðnaðarráðuneytinu með samtökum fyrirtækja í heilsutengdri ferðaþjónustu. Það verður búið til vörumerki fyrir heilsulandið Ísland. Það eru gríðarleg tækifæri fyrir norðan út af jarðböðunum og öðru sem þar er að finna. Þar sé ég fyrir mér að við munum reyna að vekja jákvæða athygli á svæðinu á því sviði líka.
Við erum að horfa á þetta í miklu stærra samhengi þannig að það þýðir ekki að gera lítið úr því að menn séu að reyna að augljósa svæðið sem góðan fjárfestingarkost og að þar með séu menn í einhverri skógarferð að leita að einhverju öðru. Það er einfaldlega ekki þannig.“