„Fólk er með hósta og óþægindi í öndunarfærum. Við ætlum að athuga hvort askan hafi víðtækari áhrif á heilsuna,“ segir Haraldur Briem sóttvarnalæknir.
Eftir helgi hefst rannsókn á heilsufarslegum afleiðingum ösku og annarra efna frá eldgosinu í Eyjafjallajökli.
Rannsóknin er unnin í samvinnu við sóttvarnalækna og heilbrigðisstarfsmenn á Suðurlandi, lækna og hjúkrunarfræðinga lungnadeildar Landspítala og fleiri.
Lungnalæknar og hjúkrunarfræðingar fara heim til fólks, einkum á svæðinu frá Eyjafjöllum og í Vík, en einnig fyrir austan Mýrdalssand ef tími vinnst til. Fólki verður boðið upp á almenna læknisskoðun, spurt eftir einkennum og öndunarstarfsemin sérstaklega athuguð.