Öll börn voru send heim úr Hvolsskóla á Hvolsvelli kl. 10 í morgun vegna svifryksmengunar í þorpinu. Austanrok er á Hvolsvelli og slæmt skyggni. Lögreglan á Hvolsvelli segir að mjög fáir séu á ferli og fyllsta ástæða sé til þess að vera með grímur ef fólk á erindi út úr húsi. Ástandið sé svipað víðast hvar á þessum slóðum. Skyggni sé um 500-600 metrar fyrir utan Hvolsvöll.
Fyrr í morgun varaði Vegagerðin við miklu öskufoki á Sólheimasandi.
„Hér er alveg hræðilega mikil svifryksmengun. Við verðum að hafa alla glugga lokaða því rykið smýgur inn og skyggnið er ekki nema 10-20 metrar. Við hleypum engum út nema með grímur og hlífðargleraugu,“ sagði Sigurlín Sveinbjarnardóttir, skólastjóri, í samtali við sunnlenska.is.
„Heilsuverndarmörkin eru 400 µg/m³ en þá mega börnin ekki fara út og ekki vera í áreynslu. Okkur leist ekki á þetta þegar mælirinn hér á Hvolsvelli fór í 900 µg/m³ í morgun. Nú standa yfir vordagar hér í skólanum með mikilli útivist, ruslatínslu og gönguferðum, en við megum bara ekki senda börnin út í þetta,“ sagði Sigurlín í samtali við Sunnlenska.