Hvalur 8, hvalveiðiskip Hvals hf. er kominn í slipp en hreinsa á botn skipsins áður en haldið verður til veiða í júní. Að sögn Kristjáns Loftssonar, framkvæmdastjóra Hvals, hefjast veiðarnar væntanlega í kringum 20. júní nk. en nákvæm dagsetning liggur ekki fyrir.
Gert hafi verið ráð fyrir að ráða um 150 manns vegna veiða og vinnslu og sagði Kristján í samtali við Morgunblaðið í síðustu viku að mannskapurinn frá því í fyrra sé að mestu til taks.
Kvóti Hvals í ár er 150 langreyðar auk 25 dýra frá fyrra fiskveiðiári eða 175 dýr.