Eðjuflóð og aska mesta ógnin

Eldgosið í Eyjafjallajökli í apríl
Eldgosið í Eyjafjallajökli í apríl mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hvítir gufubólstrar hafa komið upp úr gígnum í Eyjafjallajökli og samkvæmt upplýsingum sem sérfræðingar á Veðurstofunni hafa fengið frá flugmönnum fór gufustrókurinn í 2-2,5 km hæð. Búast má við að aska geri íbúum í nágrenni jökulsins gramt í geði á meðan þurrt er en hætta er á eðjuflóði ef rignir.

Gunnar B. Guðmundsson jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að vel hafi sést til Eyjafjallajökuls í vefmyndavélum í morgun en toppur fjallsins var hulinn að mestu hulin í gær og fyrradag.

Áfram verður fylgst grannt með stöðu mála en í nótt og í morgun hafa mælst nokkrir smáskjálftar í Eyjafjallajökli. Þeir eru hins vegar grunnir og því ekki líkur á að eldgosið sé að hefjast á nýjan leik á næstunni.

Gunnar segir líklegt að ef það fer að rigna þá megi búast við eðjuflóði í ám líkt og gerðist þann 19. maí sl. er mikið eðjuflóð kom í Svaðbælisá undir Eyjafjöllum. Það mátti rekja til þess að  gjóska, sem legið hefur á jöklinum neðan 1200-1300 metra hæðar, hafi flotið fram og hreinsast af 4-5 km2 svæði. Við úrkomuna í nótt hefur gjóskan orðið vatnsósa, fengið eiginleika vökva og flætt fram sem grautur af ösku og vatni. 

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor, sagði þá í samtali við mbl.is að hliðstæðir atburðir geti orðið á vatnsviði Laugarár og Holtsár og e.t.v. austar á jöklinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert