Mikið öskufok er undir Eyjafjöllum og eins er mikið fok á Markarfljótsaurunum, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Hvolsvelli. Í gær var sama og ekkert fok en þar sem meiri vindur er í dag þá fýkur askan af stað um leið enda þurrt. Vegagerðin varar við öskufoki allt frá Hvolsvelli að Vík í Mýrdal.
Á einhverjum bæjum eru menn byrjaðir að slá en með því vonast bændur til þess að sláttur verði betri síðar í sumar.
Á veðurvef Einars Sveinbjörnssonar kemur fram að lítilsháttar úrkoma í fyrradag í Mýrdal og undir Eyjafjöllum megi sín lítils og fljótt þorni á þessum árstíma sé loftið þurrt.
Á Steinum undir Eyjafjöllum eru 8-10 m/s. Svipað við Hvamm og Markarfljótsbrú og þessum vindstyrk er spáð í allan dag. Ef eitthvað er þá færist hann í aukana.