„Þetta er ekki alveg búið“

Eldgosið í Eyjafjallajökli hefur lítið bært á sér í rúmlega …
Eldgosið í Eyjafjallajökli hefur lítið bært á sér í rúmlega viku þangað til í kvöld. Ljósmynd Anný Aðalsteinsdóttir

„Þetta er ekki alveg búið,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur um óróann í Eyjafjallajökli. Hann segir að það komi ekki alveg á óvart að sjá gosmökk koma frá eldstöðinni, en ekkert hefur sést til gossins í rúmlega viku.

Magnús Tumi segir sennilegt að ný kvika hafi komist upp á yfirborðið. „Þetta er ekki stór atburður,“ sagði Magnús Tumi. „Þetta kemur ekki alveg á óvart og sýnir að við þurfum áfram að hafa vakandi auga með eldfjallinu.

Magnús Tumi segir að sjónarvottar hafi séð gráan mökk stíga frá eldstöðinni milli kl. 19-20 í kvöld en þetta hafi síðan gengið niður.

Freysteinn Sigmundsson jarðfræðingur telur ekki útilokað að kvika hafi komið upp um gosrásina í kvöld, en einnig geti skýringin á þessu verið sú að það hafi orðið gufusprenging í gígnum vegna þess að eldfjallið sé að kólna.

Freysteinn segir að engir jarðskjálftar hafi komið fram á mælum sem bendi til þess að óróann megi rekja til breytinga efst í fjallinu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka